Leiðbeiningar fyrir kennara um Huldar hættur á heimili Hönnu
Huldar hættur á heimili Hönnu er einfalt kennsluefni á netinu, tilbúið til notkunar. Það er miðað að nemendum í öðrum til sjötta bekk. Tilgangur efnisins er að vekja nemendur til umhugsunar um hættuleg efni og tryggja örugga notkun þeirra.
Huldar hættur á heimili Hönnu kynnir 9 ný hættumerki sem eru notuð til merkingar á hættulegum efnum. Markmiðið er að nemendurnir átti sig á hinum mismunandi hættum sem geta stafað af efnavörum.
Bakgrunnur
Hættumerkjunum er ætlað að gefa upplýsingar um þann skaða sem efni geta valdið á heilsu okkar og umhverfinu. Á tímabilinu 2010 til 2015 innleiddi Evrópusambandið nýtt kerfi fyrir flokkun og merkingu hættulegra efna sem samræmist hnattsamræmdu kerfi Sameinuðu þjóðanna fyrir flokkun og merkingu á efnum (GHS). Með þessu er ætlunin að upplýsingar um hættueiginleika efna séu samræmdar á heimsvísu.
Mörg algeng efni til heimilisnota geta verið hættuleg og nemendur kunna að finna þau heima hjá sér. Því er mikilvægt fyrir börn að gera sér grein fyrir þýðingu hættumerkja á efnavörum til að koma í veg fyrir slys og óæskilega notkun. Nýju hættumerkin eru mismunandi tákn inni í rauðum tígli með hvítum bakgrunni. Þau koma í stað gömlu hættutáknanna sem voru í appelsínugulum ferningum.
Hér má sjá nýju og gömlu hættumerkin: https://chemicalsinourlife.echa.europa.eu/pictograms-infographic.
Tími
Ein til tvær kennslustundir.
Tæknilegar kröfur:
Vefsíðan er hönnuð fyrir staðlaða skjáupplausn í flestum nýlegum vöfrum (IE9+, Safari, Firefox og Chrome). Til að skoða vefsíðuna eins og hún var hönnuð þarf skjáupplausn að vera að lágmarki 1024 pixlar að breidd og 768 pixlar að hæð. Vefsíðan krefst ekki vafraviðbóta en JavaScript þarf að vera virkjað. Hægt er að skoða vefsíðuna í snjalltækjum á borð við spjaldtölvur og farsíma en það er ekki ráðlagt þar sem hún er ekki sniðin að þeim.
Grunnsagan
Hönnu leiðist. Í dag er fjölskyldan hennar að þrífa á heimilinu. Mamma hennar Hönnu sagði henni að vera ekki fyrir. „Það getur verið hættulegt að þrífa húsið,“ segir hún. Hanna vill komast að því hvers vegna heimilisþrif geta verið hættuleg. Hún grípur myndavélina og tekur 9 myndir af fjölskyldunni við mismunandi aðstæður við þrifin.
Hvernig virkar þetta?
Eftir stuttan inngang geta nemendurnir valið úr 9 mismunandi tilvikum:
Tilvik á heimili Hönnu |
Vara |
Hættumerki |
Pabbi er að hreinsa klósettið |
Klósetthreinsir |
Ætandi |
Litli bróðir er að setja í uppþvottavélina |
Þvottaefnistöflur |
Heilsuskaði |
Frændi tekur til í bílskúrnum |
Flugeldar |
Sprengfimt |
Mamma kveikir upp í grillinu |
Grillvökvi |
Alvarlegur heilsuskaði |
Stóri bróðir er að setja viðarvörn á hjólageymsluna |
Viðarvörn |
Skaðleft umhverfinu |
Stóra systir er að vatnsverja skóna sína |
Vatnsverjandi úði |
Eldfimt Heilsuskaði |
Pabbi er að útrýma maurum |
Mauraeitur |
Skaðlegt umhverfinu |
Frænka hennar Hönnu er að hreinsa niðurfallið í sturtunni |
Stíflueyðir |
Ætandi |
Stóri bróðir er að hreinsa handriðið á stiganum |
Hreinsiefni |
Heilsuskaði |
9 mismunandi hættumerki eru notuð til að merkja hættuleg efni. Aðeins 6 af þeim koma fyrir í uppákomunum á heimili Hönnu vegna þess að hættumerkin „Bráð eiturhrif“ og „Gas undir þrýstingi“ koma sjaldan fyrir á venjulegum heimilisvörum. Hættumerkið „Eldnærandi“ er ekki notað þar sem það er frekar svipað hættumerkinu „Eldfimt“, sem kann að valda ruglingi hjá nemendum á yngri stigum. Það er þó hægt að finna lýsingu á öllum hættumerkjunum 9 á valmyndinni efst á síðunni.
- Tilvikið er kynnt.
- Borin er fram spurning varðandi kringumstæðurnar með þremur mögulegum svörum.
- Svar við spurningunni birtist.
- Nemandinn ætti að giska á hvaða hættumerki er(u) á vörunni sem notuð er í tilvikinu.
- Svarið birtist ásamt stuttri lýsingu á hættumerkinu.
- Með hnappnum „Nánari upplýsingar“ er hægt að fá nánari upplýsingar um hvert hættumerki.
- Nemandinn getur valið nýtt tilvik með því að smella á gula táknið með húsinu.
Undirbúningur
- Farðu í gegnum tilvikin á vefnum.
- Til að fá frekari upplýsingar um hættumerkin 9 er hægt að fara á ust.is/haettumerki eða á vefsvæði Efnastofnunar Evrópu; https://chemicalsinourlife.echa.europa.eu/pictograms-infographic.
- Gerðu ráðstafanir varðandi tækjabúnað.
- Komdu með úrval af hættumerktum vörum í kennslustundina.
Leiðbeiningar um Huldar hættur á heimili Hönnu
- Kynning:
• Mörg efni eru hættuleg heilsunni eða umhverfinu.
• Flest efnanna sem þú notar eru ekki hættuleg ef þú notar þau á réttan hátt og veist hvað þú átt að gera ef eitthvað fer úrskeiðis.
• Sum efni þarf að fara gætilegar með en önnur.
• Ef þú lest leiðbeiningar á merkimiða og kynnir þér hættumerkin geturðu þekkt fleiri hættulegar vörur, lært að þekkja hætturnar og þannig forðast þær.
• Merkimiði á hættulegum efnum er samsettur úr sérstökum táknum og viðvörunum. Þessi hættumerki og tengdar orðsendingar eru lögbundin. Fyrirtæki sem selja efnavörur verða að nota þau ef hættur fylgja þeim.
• Efni er ekki bara eitthvað sem vísindamenn nota á rannsóknarstofum.
• Flestir nota efnavörur heima hjá sér á hverjum degi, til dæmis við þvotta, þrif og önnur heimilisstörf. Margir nota líka efni í vinnunni.
- Sýndu nemendum þínum vörur sem merktar eru með hættumerkjum. Gakktu fyrst úr skugga um að vörurnar séu merktar með nýju rauðu og hvítu hættumerkjunum. Segðu þeim í stuttu máli hvað hættumerkin 9 merkja. Mundu að nefna að þessi hættumerki koma í stað eldri merkja sem eru appelsínugul og svört. Nemendurnir kunna að þekkja eldri merkin og vörur með þeim er ef til vill enn að finna á heimilum þeirra.
- Opnaðu síðuna honnuhus.is á skjávarpanum. Ef nemendur þínir eru ekki búnir að læra að lesa skaltu lesa textann upphátt fyrir þá.
- 4. og 6. bekkur: Láttu nemendurna vinna hvern í sínu lagi eða tvo og tvo saman á tölvu eða snjalltæki á borð við spjaldtölvu. Verkefnið gengur út á að fara í gegnum eins mörg tilvik og þeir geta á um það bil hálftíma.
- Í 2. og 3. bekk þarf að leiðbeina nemendunum í gegnum tilvikin 9 á skjávarpanum.
- Gerðu ráð fyrir auka 10 mínútum við lok kennslustundarinnar. Varpaðu hættumerkjunum 9 á vegginn (smelltu á valmyndina). Geta nemendurnir svarað eftirfarandi spurningum um hættumerkin?
• Hvernig vörur eru yfirleitt merktar sem eldfimar?
• Hverjar eru hætturnar og hvernig má forðast þær?
• Hvernig vörur eru yfirleitt merktar sem ætandi?
• Hverjar eru hætturnar og hvernig má forðast þær?
• Hvernig vörur eru yfirleitt merktar sem hættulegar heilsunni?
• Hverjar eru hætturnar og hvernig má forðast þær?
Frekari tillögur
Ef þú vilt eyða meiri tíma í kennsluefnið geturðu bætt eftirfarandi verkefnum við upphaflega kynningu:
Huldar hættur á heimili [nafn nemanda]
Biddu nemendurna að kanna hversu margar hættumerktar vörur þeir finna heima hjá sér eða í skólanum. Gakktu úr skugga um að þau biðji einhvern fullorðinn um hjálp við þetta verkefni, til að forðast slys. Þau geta annað hvort skrifað niður lista eða tekið myndir af vörunum. Í kennslustundinni geturðu skrifað niður hvað þau finna og búið til einfaldan lista á töfluna. Niðurstöðurnar gætu verið eftirfarandi:
- Hvaða hættumerki var algengast?
- Hvaða hættumerki var sjaldgæfast?
- Prentaðu út hættumerkin 9 hér fyrir neðan og klipptu þau út.
- Raðaðu hættumerkjunum 1-9 (1 = flest, 9 = fæst).
- Búðu til lista og settu hann á vegginn.
Mikilvægt: Þú ættir að láta foreldra vita af verkefninu fyrirfram svo þeir geti aðstoðað nemendurna við heimaverkefnið. Þeir ættu ekki að gera þetta á eigin spýtur! Ef þið farið í vettvangsferð innan skólans þarft þú að leiðbeina þeim.
Almennar athugasemdir um Huldar hættur á heimili Hönnu
Efnavörur eru ekki endilega merktar nákvæmlega eins og í uppákomunum í Huldar hættur á heimili Hönnu. Klósetthreinsirinn í tilvikinu „Pabbi er að hreinsa klósettið“ er til dæmis merktur með hættumerkinu Ætandi. Það er hins vegar hægt að kaupa klósetthreinsi sem er ekki með þessu merki. Hættur sem tengjast vöru fara eftir nákvæmri efnasamsetningu vörunnar og styrk hinna hættulegu efna í henni. Klósetthreinsir gæti einnig verið merktur með hættumerkinu „Heilsuskaði“ vegna áhrifa á húð eða augu, í stað hættumerkisins „Ætandi“. Einnig getur verið að varan þurfi alls ekki að vera hættumerkt.