Efni og umhverfið

Efni og umhverfið

Hvað eru umhverfisskaðleg efni? Af hverju finnast hættuleg efni í líkama ísbjarna? Hvað er hægt að gera til að halda hættulegum efnum frá umhverfinu? Þú finnur svörin í þessari grein.

Hugtakið „umhverfisskaðleg efni“ er notað um öll efni, sem eru skaðleg dýrum og plöntum. Umhverfisskaðleg efni geta valdið truflun á starfsemi líkama dýra og getu þeirra til þess að fjölga sér og eignast ungviði. Það er þekkt að eggjaskurn hjá sumum fuglategundum er að verða þynnri af völdum umhverfisskaðlegra efna. Það þýðir að eggin geta brotnað við minnsta álag þegar foreldrarnir liggja á þeim.

Þegar við tölum um umhverfisskaðleg efni er það oftast í þeim skilningi að um sé að ræða manngerð efni sem ekki finnast náttúrulega og eru þess vegna óæskileg í umhverfinu. Þessi efni geta borist út í umhverfið frá verksmiðjum og heimilum með fráveituvatni, reyk úr strompum og sorpi.

Efni sem finnast náttúrulega geta einnig verið hættuleg ef þau berast út í umhverfið. Náttúruleg olía sem mennirnir hafa dælt upp úr jörðinni hefur til dæmis valdið umhverfistjóni við mengunarslys.

Sum efni geta haft áhrif samstundis á meðan að skaðleg áhrif annara efna koma fram eftir langan tíma. Efni til heimilisnota fara venjulega í gegnum hreinsistöð fráveitu þar sem skaðleg efni eru fjarlægð eða brotin niður áður en hreinsaða fráveituvatnið er losað út í vatnsumhverfið.

Efni geta safnast upp í fæðukeðjunni

Vissir þú að vísindamenn hafa fundið hættuleg efni eins og kvikasilfur í ísbjörnum? Ísbirnir lifa á Norðurskautinu, fjarri mönnum og verksmiðjum. Hvernig getur það þá gerst?

Svarið við þessari spurningu er frekar flókið en hér er einföld útskýring: Sum hættuleg efni brotna fljótt niður í hættulaus efni í umhverfinu. Önnur brotna ekki niður og finnast í umhverfinu í mjög langan tíma eftir að þau hafa verið losuð út í það. Við segjum að þessi efni séu „þrávirk“ og þegar þau eru einu sinni komin út í umhverfið getur reynst mjög erfitt að ná tökum á þeim á ný. Efnin geta ferðast langar leiðir með lofti eða vatni og safnast upp í fæðukeðjunni þar sem þau valda skaðlegum áhrifum á lífverur, sérstaklega í dýrum sem eru ofarlega í keðjunni. Kvikasilfur er dæmi um efni sem helst lengi í umhverfinu og það getur líka safnast fyrir í lífverum fæðukeðjunnar. Fiskar, fuglar og spendýr geta orðið fyrir miklum áhrifum af völdum kvikasilfurs.

foodchain

Kvikasilfur getur borist út í umhverfið frá verksmiðjum sem brenna kolum, við námuvinnslu og við sorpbrennslu. Í umhverfinu er kvikasilfur tekið upp af örverum, þörungum og smádýrum. Þar sem að stærri dýr borða minni dýr, þá heldur kvikasilfrið áfram að safnast upp í fiskum og þeim dýrum ofar í fæðukeðjunni sem borða fiskinn. Ísbirnir, sem efstir eru í fæðukeðjunni, fá þess vegna mikið magn af kvikasilfri í gegnum fæðuna.

Vörur sem bera hættumerkið „Skaðlegt umhverfinu“

Við leiðum hugann yfirleitt ekki að því að efni í vörum til heimilisnota geti verið umhverfisskaðleg. Þessar vörur eru nytsamlegar til viðhalds á heimili okkar og garði, við notum þær til dæmis til að losa okkur við óhreinindi, gera við hjólið eða lagfæra og mála húsið. Samt sem áður geta sumar af þessum vörum innihaldið efni sem eru hættuleg umhverfinu og eru þess vegna óæskileg í því. Þú getur greint þessar vörur með því að skoða vel merkimiðann á þeim. Er að finna á honum hættumerki með mynd af visnuðu tré og dauðum fiski?

Skaðlegt umhverfinu: Þetta hættumerki er mögulega hægt að sjá á málningu, vatnsverjandi úða, gróðurhindrandi málningu fyrir skip, eldsneyti, lími og lakki.

Hvað getur þú gert til þess að vernda umhverfið?

Þú og fjölskyldan þín getið tekið þátt í að stuðla að hreinna umhverfi. Í staðinn fyrir að nota hættuleg efni, getur þú leitað að staðgengilsefnum, sem eru betri fyrir umhverfið. Þú getur til dæmis valið vörur sem eru merktar með „Evrópublóminu“ eða „Svaninum“. Þær eru oftast hættuminni. Þvottur með heitu vatni getur stundum virkað alveg jafn vel og hreinsiefni sem inniheldur hættuleg efni.

Þegar þú notar hættuleg efni eru nokkur atriði sem þú getur haft í huga til að vernda umhverfið:

  1. Lestu merkimiðann og leiðbeiningarnar fyrir örugga notkun.
  2. Geymdu efnin alltaf í upprunalegu umbúðunum.
  3. Farðu með efnaleifar í spilliefnamóttöku – vörur sem eru merktar með hættumerkinu „Skaðlegt umhverfinu“ á aldrei að losa í niðurföll eða henda í almennt sorp.

Þekkir þú þessi hugtök?

Þrávirkt efni: Efni sem er langlíft eða erfitt að brjóta niður.

Vistkerfi: Vistkerfi er samsett úr öllum lífverum og lífvana þáttum umhverfisins á ákveðnu svæði. Í vistkerfi ríkir jafnvægi þar sem plöntur og dýr eru í ákveðnu samspili við hvort annað en einnig við lífvana þætti eins og vatn, ljós, steinefni úr jarðveginum og lofttegundir í andrúmsloftinu.

Fæðukeðja: Fæðukeðja sýnir hvernig mismunandi lífverur innan vistkerfis afla sér fæðu. Neðst í fæðukeðjunni eru einfaldar lífverur (bakteríur, plöntu- og dýrasvif), sem veita stærri lífverum fæðu, sem étnar er af dýrum ofar í fæðukeðjunni og þannig koll af kolli. Efst í fæðukeðjunni má finna rándýr sem éta önnur dýr.

Örverur: Örvera er smásæ lífvera eins og baktería, sveppur og smáþörungar sem ekki er hægt að greina með berum augum.

Svif: Svif er ekki heiti á sérstakri lífveru eða dýri heldur flokkur af smásæjum lífverum, hvort sem um er að ræða plöntu-, bakteríu- eða dýrasvif, sem fljóta um í vatni eða hafi. Svif eru mjög mikilvæg fæða fyrir mörg vatnadýr eins og fisk.