Huldar hættur

- á heimili Hönnu

  • Hættumerki
  • Kennarar
  • Pabbi er að hreinsa klósettið.

  • Frændi tekur til í bílskúrnum

  • Litli bróðir er að setja í uppþvottavélina.

  • Mamma kveikir upp í grillinu.

  • Stóri bróðir er að setja viðarvörn á hjólageymsluna.

  • Stóra systir er að úða nýju skóna sína til að halda þeim vatnsheldum.

  • Pabbi er að útrýma maurum.

  • Frænka hennar Hönnu er að hreinsa niðurfallið í sturtunni.

  • Stóri bróðir er að hreinsa handriðið á stiganum.

Hæ öll sömul!

Ég heiti Hanna. Það er mikið um að vera heima hjá mér í dag. Viltu koma og sjá?

Komdu með mér

Hjálpaðu Hönnu!

Hvað þýða hættumerkin?

Skyndipróf
Heimur okkar samanstendur af efnum

Heimur okkar samanstendur af efnum

Efni og umhverfið

Efni og umhverfið

Verum varkár

Verum varkár

Umhverfisstofnun, Environment Agency of Iceland
Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík, Iceland
Sími / Phone: +354 591 2000
Veffang / Webpage: ust.is

  • Ef slys ber að höndum
  • Um Hönnuhús

Hættumerki

Ætandi

Þetta hættumerki gefur til kynna að varan sé ætandi. Það er hættulegt að fá ætandi efni á húðina, í augun eða munninn.

Vara með merkinu „Ætandi“ getur valdið alvarlegum skaða ef þú færð hana á húðina, í augun eða munninn. Það er eins og að brenna sig.

Ætandi efni eru mjög algeng. Það er líklegt að svoleiðis efni séu til heima hjá þér. Þau geta meðal annars verið klósetthreinsir, stíflueyðir, kalkhreinsir, þvottaduft og ammóníak til heimilisnota. Sumar vörur geta haft ætandi áhrif á málma.

Sum hreinsiefni fyrir uppþvottavélar og þvottavélar eru einnig ætandi. Þú skalt alltaf þvo hendurnar vandlega eftir að hafa snert þvottaefnistöflur. Stundum er þvottaefni fyrir uppþvottavélar í fallegum töflum eða hylkjum. Lítil börn geta haldið að þau séu nammi og sett þau í munninn. Ætandi þvottaefni og allar aðrar hættumerktar vörur eiga alltaf að vera geymdar á stað þar sem börn ná ekki til.

Þegar þú notar ætandi efni skaltu alltaf verja þig með því að nota hanska og hlífðargleraugu.

Hættumerki

Heilsuskaði

Þetta hættumerki þýðir að varan geti verið skaðleg ef hún kemst í snertingu við húðina, augun eða lungun. Þú skalt ekki anda þessu efni að þér, gleypa það eða láta það komast í snertingu við húðina.

Vara sem merkt er „Heilsuskaði“ getur verið skaðleg ef hún er gleypt, henni andað að sér eða ef hún kemst í snertingu við húðina. Hún getur valdið ertingu í öndunarvegi, húð eða augum og jafnvel valdið ofnæmisviðbrögðum í húð. Ef maður andar henni að sér getur verið að hún valdi sljóleika eða svima. Þetta tákn getur einnig verið á vörum sem eru hættulegar ósonlaginu.

Vörur með merkinu „Heilsuskaði“ eru algengar á flestum heimilum. Merkið má til dæmis finna á úðabrúsum með lykteyði og flöskum með uppþvottalegi, hreinsiefnum og frostlegi.

Þú skalt forðast að anda að þér gufum frá þessum efnum og nota þau bara utandyra eða á vel loftræstum stað. Notaðu viðeigandi hlífðarbúnað, til dæmis fyrir húð og augu, ef fyrirmæli um það koma fram á merkimiðanum á vörunni.

Hættumerki

Skaðlegt umhverfinu

Þetta hættumerki segir þér að varan geti verið hættuleg umhverfinu.

Sum efni eru hættuleg umhverfinu. Vörur með merkinu „Skaðlegt umhverfinu“ eru eitraðar vatnalífverum og geta safnast upp í fæðukeðjunni.

Þú getur séð þetta hættumerki á vörum sem eru notaðar til að losna við skordýr og illgresi í görðum. Þetta hættumerki getur líka verið á vörum eins og málningu, terpentínu og vatnsverjandi úða fyrir skó. Þessar vörur eru yfirleitt með fleiri en eitt hættumerki og eru oft líka skaðlegar mannfólki.

Vörum sem merktar eru „Skaðlegar umhverfinu“ ætti ekki að hella í niðurföll eða setja í ruslatunnuna heima. Rétta leiðin til að henda leifum af svona vörum er að fara með þær á endurvinnslustöð.

Hættumerki

Eldfimt

Þetta hættumerki segir þér að varan sé eldfim. Hana ætti að geyma fjarri opnum eldi og öðrum íkveikjuvöldum, svo sem neistum frá rafbúnaði eða vélbúnaði.

Það getur verið að það kvikni í sumum vörum ef þær eru of nálægt opnum eldi eða ef þær komast í snertingu við neista (til dæmis frá rofum í rafbúnaði).

Hættumerkið „Eldfimt“ er oft að finna á vörum í eldhúsinu, baðherberginu eða bílskúrnum. Þetta geta verið vörur eins og vatnsverjandi úði fyrir skó, handspritt, málning, lím, hreinsiefni, leysiefni, grillvökvi og fleira.

Vörur sem eru merktar „Eldfimt“ ætti ekki að nota nærri opnum eldi eða öðrum íkveikjuvöldum. Geyma ætti vörurnar í vandlega lokuðum umbúðum og halda þeim fjarri neistum, opnum eldi og heitum stöðum. Þær ætti að geyma á köldum stað sem er varinn gegn sólarljósi.

Hættumerki

Alvarlegur heilsuskaði

Þetta hættumerki gefur til kynna að varan geti verið mjög hættuleg heilsunni ef hún er ekki notuð á réttan hátt. Farðu mjög varlega ef þú sérð þetta hættumerki á vöru!

Vara með þessu hættumerki getur verið mjög hættuleg heilsunni ef hún er notuð á rangan hátt. Mögulegt er að skaði vegna þessara efna komi ekki fram fyrr en löngu eftir notkun eða eftir endurtekna snertingu við þau.

Mismunandi tegundir af áhrifum tengjast hættumerkinu „Alvarlegur heilsuskaði“. Efni með þessu hættumerki geta skemmt líffæri í líkamanum. Ef þú gleypir þau geta þau farið niður í lungu og mögulega verið banvæn. Ef þú andar þeim að þér getur verið að þau valdi ofnæmisviðbrögðum, astma eða öndunarerfiðleikum.

Hættumerkið „Alvarlegur heilsuskaði“ er einnig notað fyrir önnur alvarleg áhrif á heilsu, svo sem krabbamein. Slíkar vörur mega aldrei að vera þar sem börn ná til. Það er hins vegar mjög ólíklegt að þú finnir þær heima hjá þér.

Það er möguleiki að þú sjáir hættumerkið „Alvarlegur heilsuskaði“ á heimilisvörum á borð við grillvökva, lím, terpentínu og bensín. Merkið er oft á utan á umbúðum fyrir lampaolíu, sem er notuð fyrir garðljós og olíulampa. Slíkar vörur eru yfirleitt merktar með „Alvarlegur heilsuskaði“ vegna mögulegra áhrifa á lungu ef þau eru innbyrt.

Vörur með merkinu „Alvarlegur heilsuskaði“ ætti að læsa inni. Það þarf að lesa og skilja varúðarráðstafanir sem koma fram á vörunni áður en hún er meðhöndluð. Nota skal hlífðarbúnað ef fyrirmæli eru gefin um það.

Hættumerki

Sprengifimt

Þetta hættumerki segir þér að varan geti sprungið.

Þú finnur væntanlega ekki neinar vörur með þessu merki heima hjá þér. Flestar svona vörur eru notaðar á tilteknum vinnustöðum, eins og rannsóknarstofum og verksmiðjum. Stundum eru þessi hættumerki á hlutum sem geta verið á heimilum, svo sem flugeldum, neyðarblysum og skotfærum.

Sprengifim efni ætti að geyma fjarri hita, neistum og opnum eldi.

Flugeldar eiga að vera með hættumerkið „Sprengifimt“. Ef það eru flugeldar heima hjá þér ættu þeir að vera geymdir á köldum, dimmum stað. Í sumum löndum er notkun flugelda aðeins leyfð í kringum áramót.

Hættumerki

Eldnærandi

Þetta hættumerki gefur til kynna að varan gæti gert eldsvoða enn verri.

Ef þú sérð þetta hættumerki á vöru þá merkir það að þú sért að eiga við eldnærandi efni. Eldnærandi efni geta hraðað eldi og aukið hann með því að veita honum meira súrefni.

Hættumerkið „Eldnærandi“ má finna á vörum eins og sótthreinsitöflum og vökva sem ætlað er að drepa bakteríur í baðkerum og heitum pottum.

Það ætti að geyma eldnærandi efni fjarri opnum eldi og öllum eldfimum efnum.

Hættumerki

Bráð eiturhrif

Þetta hættumerki merkir að varan sé mjög eitruð.

Það er ekki mjög líklegt að þú finnir vörur með þessu merki heima hjá þér. Ef þú gerir það skaltu halda þig fjarri þeim! Hauskúpan og beinin gefa til kynna að varan sé mjög eitruð og geti valdið alvarlegum veikindum, jafnvel dauða, ef hún er notuð á rangan hátt.

Hættumerkið „Bráð eiturhrif“ er yfirleitt á vörum sem notaðar eru til að drepa meindýr á borð við rottur.

Aðeins fólk sem veit hvernig fara á með svona vörur má kaupa þær, til dæmis meindýraeyðar.

Hættumerki

Gas undir þrýstingi

Þetta hættumerki þýðir að varan innihaldi gas undir þrýstingi.

Það er mjög mikilvægt að brúsar og kútar sem innihalda gas séu ekki hitaðir, til dæmis geymdir of nálægt opnum eldi, þar sem þeir geta sprungið vegna hitans. Það þarf að fara með þá í samræmi við leiðbeiningar sem eru á umbúðum vegna hættu á sprengingu. Ef þeir skemmast ætti að farga þeim á viðeigandi hátt af sérfræðingi þar sem skemmdin getur haft áhrif á öryggið og valdið sprengingu.

Hættumerkið „Gas undir þrýstingi“ er utan á geymum fyrir gas, svo sem spreybrúsum og gaskútum.

Er kannski gaskútur á þínu heimili? Gas undir þrýstingi er notað fyrir gaseldavélar og gasgrill. Bifvélavirkjar og smiðir nota einnig gas undir þrýstingi fyrir málmsuðu. Kafarar nota gaskúta með þrýstilofti til að anda í kafi.

Hættumerki

  • Ætandi

    Þetta hættumerki gefur til kynna að varan sé ætandi. Það er hættulegt að fá ætandi efni á húðina, í augun eða munninn.

  • Heilsuskaði

    Þetta hættumerki þýðir að varan geti verið skaðleg ef hún kemst í snertingu við húðina, augun eða lungun. Þú skalt ekki anda þessu efni að þér, gleypa það eða láta það komast í snertingu við húðina.

  • Skaðlegt umhverfinu

    Þetta hættumerki segir þér að varan geti verið hættuleg umhverfinu.

  • Eldfimt

    Þetta hættumerki segir þér að varan sé eldfim. Hana ætti að geyma fjarri opnum eldi og öðrum íkveikjuvöldum, svo sem neistum frá rafbúnaði eða vélbúnaði.

  • Alvarlegur heilsuskaði

    Þetta hættumerki gefur til kynna að varan geti verið mjög hættuleg heilsunni ef hún er ekki notuð á réttan hátt. Farðu mjög varlega ef þú sérð þetta hættumerki á vöru!

  • Sprengifimt

    Þetta hættumerki segir þér að varan geti sprungið.

  • Eldnærandi

    Þetta hættumerki gefur til kynna að varan gæti gert eldsvoða enn verri.

  • Bráð eiturhrif

    Þetta hættumerki merkir að varan sé mjög eitruð.

  • Gas undir þrýstingi

    Þetta hættumerki þýðir að varan innihaldi gas undir þrýstingi.

Leiðbeiningar fyrir kennara um Huldar hættur á heimili Hönnu

Huldar hættur á heimili Hönnu er einfalt kennsluefni á netinu, tilbúið til notkunar. Það er miðað að nemendum í öðrum til sjötta bekk. Tilgangur efnisins er að vekja nemendur til umhugsunar um hættuleg efni og tryggja örugga notkun þeirra. Huldar hættur á heimili Hönnu kynnir 9 ný hættumerki sem eru notuð til merkingar á hættulegum efnum. Markmiðið er að nemendurnir átti sig á hinum mismunandi hættum sem geta stafað af efnavörum.

Bakgrunnur

Hættumerkjunum er ætlað að gefa upplýsingar um þann skaða sem efni geta valdið á heilsu okkar og umhverfinu. Á tímabilinu 2010 til 2015 innleiddi Evrópusambandið nýtt kerfi fyrir flokkun og merkingu hættulegra efna sem samræmist hnattsamræmdu kerfi Sameinuðu þjóðanna fyrir flokkun og merkingu á efnum (GHS). Með þessu er ætlunin að upplýsingar um hættueiginleika efna séu samræmdar á heimsvísu.

Mörg algeng efni til heimilisnota geta verið hættuleg og nemendur kunna að finna þau heima hjá sér. Því er mikilvægt fyrir börn að gera sér grein fyrir þýðingu hættumerkja á efnavörum til að koma í veg fyrir slys og óæskilega notkun. Nýju hættumerkin eru mismunandi tákn inni í rauðum tígli með hvítum bakgrunni. Þau koma í stað gömlu hættutáknanna sem voru í appelsínugulum ferningum.

Hér má sjá nýju og gömlu hættumerkin: https://chemicalsinourlife.echa.europa.eu/pictograms-infographic.

Tími

Ein til tvær kennslustundir.

Tæknilegar kröfur:

Vefsíðan er hönnuð fyrir staðlaða skjáupplausn í flestum nýlegum vöfrum (IE9+, Safari, Firefox og Chrome). Til að skoða vefsíðuna eins og hún var hönnuð þarf skjáupplausn að vera að lágmarki 1024 pixlar að breidd og 768 pixlar að hæð. Vefsíðan krefst ekki vafraviðbóta en JavaScript þarf að vera virkjað. Hægt er að skoða vefsíðuna í snjalltækjum á borð við spjaldtölvur og farsíma en það er ekki ráðlagt þar sem hún er ekki sniðin að þeim.

Grunnsagan

Hönnu leiðist. Í dag er fjölskyldan hennar að þrífa á heimilinu. Mamma hennar Hönnu sagði henni að vera ekki fyrir. „Það getur verið hættulegt að þrífa húsið,“ segir hún. Hanna vill komast að því hvers vegna heimilisþrif geta verið hættuleg. Hún grípur myndavélina og tekur 9 myndir af fjölskyldunni við mismunandi aðstæður við þrifin.

Hvernig virkar þetta?

Eftir stuttan inngang geta nemendurnir valið úr 9 mismunandi tilvikum:

Tilvik á heimili Hönnu Vara Hættumerki
Pabbi er að hreinsa klósettið Klósetthreinsir Ætandi
Litli bróðir er að setja í uppþvottavélina Þvottaefnistöflur Heilsuskaði
Frændi tekur til í bílskúrnum Flugeldar Sprengfimt
Mamma kveikir upp í grillinu Grillvökvi Alvarlegur heilsuskaði
Stóri bróðir er að setja viðarvörn á hjólageymsluna Viðarvörn Skaðleft umhverfinu
Stóra systir er að vatnsverja skóna sína Vatnsverjandi úði Eldfimt
Heilsuskaði
Pabbi er að útrýma maurum Mauraeitur Skaðlegt umhverfinu
Frænka hennar Hönnu er að hreinsa niðurfallið í sturtunni Stíflueyðir Ætandi
Stóri bróðir er að hreinsa handriðið á stiganum Hreinsiefni Heilsuskaði

9 mismunandi hættumerki eru notuð til að merkja hættuleg efni. Aðeins 6 af þeim koma fyrir í uppákomunum á heimili Hönnu vegna þess að hættumerkin „Bráð eiturhrif“ og „Gas undir þrýstingi“ koma sjaldan fyrir á venjulegum heimilisvörum. Hættumerkið „Eldnærandi“ er ekki notað þar sem það er frekar svipað hættumerkinu „Eldfimt“, sem kann að valda ruglingi hjá nemendum á yngri stigum. Það er þó hægt að finna lýsingu á öllum hættumerkjunum 9 á valmyndinni efst á síðunni.

  1. Tilvikið er kynnt.
  2. Borin er fram spurning varðandi kringumstæðurnar með þremur mögulegum svörum.
  3. Svar við spurningunni birtist.
  4. Nemandinn ætti að giska á hvaða hættumerki er(u) á vörunni sem notuð er í tilvikinu.
  5. Svarið birtist ásamt stuttri lýsingu á hættumerkinu.
  6. Með hnappnum „Nánari upplýsingar“ er hægt að fá nánari upplýsingar um hvert hættumerki.
  7. Nemandinn getur valið nýtt tilvik með því að smella á gula táknið með húsinu.


Undirbúningur

  1. Farðu í gegnum tilvikin á vefnum.
  2. Til að fá frekari upplýsingar um hættumerkin 9 er hægt að fara á ust.is/haettumerki eða á vefsvæði Efnastofnunar Evrópu; https://chemicalsinourlife.echa.europa.eu/pictograms-infographic.
  3. Gerðu ráðstafanir varðandi tækjabúnað.
  4. Komdu með úrval af hættumerktum vörum í kennslustundina.

Leiðbeiningar um Huldar hættur á heimili Hönnu

  1. Kynning:
    • Mörg efni eru hættuleg heilsunni eða umhverfinu.
    • Flest efnanna sem þú notar eru ekki hættuleg ef þú notar þau á réttan hátt og veist hvað þú átt að gera ef eitthvað fer úrskeiðis.
    • Sum efni þarf að fara gætilegar með en önnur.
    • Ef þú lest leiðbeiningar á merkimiða og kynnir þér hættumerkin geturðu þekkt fleiri hættulegar vörur, lært að þekkja hætturnar og þannig forðast þær.
    • Merkimiði á hættulegum efnum er samsettur úr sérstökum táknum og viðvörunum. Þessi hættumerki og tengdar orðsendingar eru lögbundin. Fyrirtæki sem selja efnavörur verða að nota þau ef hættur fylgja þeim.
    • Efni er ekki bara eitthvað sem vísindamenn nota á rannsóknarstofum.
    • Flestir nota efnavörur heima hjá sér á hverjum degi, til dæmis við þvotta, þrif og önnur heimilisstörf. Margir nota líka efni í vinnunni.
  2. Sýndu nemendum þínum vörur sem merktar eru með hættumerkjum. Gakktu fyrst úr skugga um að vörurnar séu merktar með nýju rauðu og hvítu hættumerkjunum. Segðu þeim í stuttu máli hvað hættumerkin 9 merkja. Mundu að nefna að þessi hættumerki koma í stað eldri merkja sem eru appelsínugul og svört. Nemendurnir kunna að þekkja eldri merkin og vörur með þeim er ef til vill enn að finna á heimilum þeirra. 
  3. Opnaðu síðuna honnuhus.is á skjávarpanum. Ef nemendur þínir eru ekki búnir að læra að lesa skaltu lesa textann upphátt fyrir þá.
  4. 4. og 6. bekkur: Láttu nemendurna vinna hvern í sínu lagi eða tvo og tvo saman á tölvu eða snjalltæki á borð við spjaldtölvu. Verkefnið gengur út á að fara í gegnum eins mörg tilvik og þeir geta á um það bil hálftíma.
  5. Í 2. og 3. bekk þarf að leiðbeina nemendunum í gegnum tilvikin 9 á skjávarpanum.
  6. Gerðu ráð fyrir auka 10 mínútum við lok kennslustundarinnar. Varpaðu hættumerkjunum 9 á vegginn (smelltu á valmyndina). Geta nemendurnir svarað eftirfarandi spurningum um hættumerkin?
    • Hvernig vörur eru yfirleitt merktar sem eldfimar?
    • Hverjar eru hætturnar og hvernig má forðast þær?
    • Hvernig vörur eru yfirleitt merktar sem ætandi?
    • Hverjar eru hætturnar og hvernig má forðast þær?
    • Hvernig vörur eru yfirleitt merktar sem hættulegar heilsunni?
    • Hverjar eru hætturnar og hvernig má forðast þær?

Frekari tillögur

Ef þú vilt eyða meiri tíma í kennsluefnið geturðu bætt eftirfarandi verkefnum við upphaflega kynningu:

Huldar hættur á heimili [nafn nemanda]

Biddu nemendurna að kanna hversu margar hættumerktar vörur þeir finna heima hjá sér eða í skólanum. Gakktu úr skugga um að þau biðji einhvern fullorðinn um hjálp við þetta verkefni, til að forðast slys. Þau geta annað hvort skrifað niður lista eða tekið myndir af vörunum. Í kennslustundinni geturðu skrifað niður hvað þau finna og búið til einfaldan lista á töfluna. Niðurstöðurnar gætu verið eftirfarandi:

  • Hvaða hættumerki var algengast?
  • Hvaða hættumerki var sjaldgæfast?
  • Prentaðu út hættumerkin 9 hér fyrir neðan og klipptu þau út.
  • Raðaðu hættumerkjunum 1-9 (1 = flest, 9 = fæst).
  • Búðu til lista og settu hann á vegginn.

 

Mikilvægt: Þú ættir að láta foreldra vita af verkefninu fyrirfram svo þeir geti aðstoðað nemendurna við heimaverkefnið. Þeir ættu ekki að gera þetta á eigin spýtur! Ef þið farið í vettvangsferð innan skólans þarft þú að leiðbeina þeim.


Almennar athugasemdir um Huldar hættur á heimili Hönnu

Efnavörur eru ekki endilega merktar nákvæmlega eins og í uppákomunum í Huldar hættur á heimili Hönnu. Klósetthreinsirinn í tilvikinu „Pabbi er að hreinsa klósettið“ er til dæmis merktur með hættumerkinu Ætandi. Það er hins vegar hægt að kaupa klósetthreinsi sem er ekki með þessu merki. Hættur sem tengjast vöru fara eftir nákvæmri efnasamsetningu vörunnar og styrk hinna hættulegu efna í henni. Klósetthreinsir gæti einnig verið merktur með hættumerkinu „Heilsuskaði“ vegna áhrifa á húð eða augu, í stað hættumerkisins „Ætandi“. Einnig getur verið að varan þurfi alls ekki að vera hættumerkt.

_____________________________'s House of Hidden Hazards

Ask your pupils to find out how many hazard-labelled products they have in their own homes or in the school building.

Ensure that they ask an adult to help them with this task, just to avoid accidents. They can either make a list or take pictures of the products on their mobile devices. In class you can illustrate their findings using a simple scheme drawn on the blackboard, flipchart or on the smart-board. Observations might include:

  • What hazard pictogram did we find the most of?
  • What hazard pictogram did we find the fewest of?
  • Make a print of the 9 hazard pictograms below and cut them out.
  • Rate the pictograms from 1- 9 (1 = most of, 9 = least of).
  • Make a hit list and put it on the wall.

 

Health hazard Corrosive Serious health hazard Flammable Hazardous to the environment Explosive Gas under pressure Oxidizing Acute toxicity
                 

Insert number of detected hazard pictograms

 

Um Hönnuhús

Hættumerkjunum er ætlað að gefa upplýsingar um þann skaða sem efni geta valdið á heilsu okkar og umhverfi, sem og eðlisræna hættu eins og t.d. eld og sprengingu.

Á tímabilinu 2010 til 2015 innleiddi Evrópusambandið ásamt Noregi og Íslandi nýtt kerfi fyrir flokkun og merkingu hættulegra efna, svonefnda CLP reglugerð, sem samræmist hnattsamræmdu kerfi Sameinuðu þjóðanna fyrir flokkun og merkingu á efnum (GHS). Með þessu er ætlunin að upplýsingar um hættueiginleika efna séu samræmdar á heimsvísu.

Huldar hættur á heimili Hönnu er einfalt kennsluefni á netinu. Það er miðað að nemendum sem eru u.þ.b. á aldrinum 8-12 ára. Tilgangur efnisins er að vekja nemendur til umhugsunar um hættuleg efni og tryggja örugga notkun þeirra. Huldar hættur á heimili Hönnu kynnir 9 hættumerki sem eru notuð til merkingar á hættulegum efnum. Markmiðið er að nemendur átti sig á hinum mismunandi hættum sem geta stafað af efnavörum.

Vefsíðan Huldar hættur á heimili Hönnu er þróuð af Norræna Efnavöruhópnum undir Norrænu ráðherranefndinni.

Almennar athugasemdir um Huldar hættur á heimili Hönnu

Efnavörur eru ekki endilega merktar nákvæmlega eins og í uppákomum í Huldar hættur á heimili Hönnu. Klósetthreinsirinn í tilvikinu „Pabbi er að hreinsa klósettið“ er til dæmis merktur með hættumerkinu Ætandi. Það er hins vegar hægt að kaupa klósetthreinsi sem er ekki með þessu merki. Hættur sem tengjast vöru fara eftir nákvæmri efnasamsetningu vörunnar og styrk hinna hættulegra efna í henni. Klósetthreinsir gæti einnig verið merktur með hættumerkinu „Heilsuskaði“ vegna áhrifa á húð eða augu, í stað hættumerkisins „Ætandi“. Það getur einnig verið að varan þurfi alls ekki að vera hættumerkt.

Ef slys ber að höndum

Ef upp kemur slys eða þú verður vitni að slysi með efni eða efnavöru þá skaltu alltaf kalla á fullorðinn og biðja um hjálp. Ef enginn fullorðinn er nálægt skaltu hringja í neyðarlínuna 112. Ef það verður eitrunarslys getur þú líka hringt í Eitrunarmiðstöð Landspítalans. Þar er spurt nokkurra spurninga í gegnum símann og séð til þess að hjálp berist. Símanúmerið hjá Eitrunarmiðstöð er 543-2222 og það er opið allan sólarhringinn.

Þetta er Hanna. Henni leiðist. Í dag er fjölskyldan hennar að þrífa heimilið.

Mamma sagði við hana: Ekki vera fyrir, Hanna. Það getur verið hættulegt að þrífa heimilið.

Hanna fær hugmynd: Ég ætla að komast að því hvers vegna það getur verið hættulegt að þrífa hús!

Hún grípur myndavélina sína og leggur upp í hættuför.

Halda áfram