Heimur okkar samanstendur af efnum

Heimur okkar samanstendur af efnum

Eru öll efni hættuleg? Hver er munurinn á náttúrulegu efni og manngerðu efni? Finndu svörin í þessari grein.

Líttu í kring um þig. Hvað sérðu? Síma besta vinar þíns? Blýant? Nýju skóna þína? Tré fyrir utan? Hvað heldur þú að þessir mismunandi hlutir eigi sameiginlegt? Nákvæmlega! Þessi hlutir eru allir byggðir úr frumefnum.

Frumefnin eru byggingareiningar alls hins lifandi og dauða á jörðinni. Frumefni finnast í okkur sjálfum, allt í kringum okkur og í vörum sem að við kaupum. Hægt er að blanda frumefnum saman á ótal vegu þannig að úr verða mismunandi tegundir af efnum og vörum.

Í okkar daglega lífi snýst allt um efnafræði, hvort sem við erum nú að elda mat, þrífa bílinn eða bursta tennurnar. Lyf sem við notum við veikindum eru búin til úr efnum. Vatnið, loftið og sólin eru meira að segja búin til úr efnum og án þeirra væri einfaldlega ekkert líf.

Efni eru bæði náttúruleg og manngerð

Mörg efni finnast náttúruleg í umhverfinu. Önnur eru manngerð og búin til inni á rannsóknarstofum eða í efnaverksmiðjum. Dæmi um náttúruleg efni eru sykrur og sjávarsalt, blaðgræna – efnið sem gerir plöntur grænar, C- vítamín í appelsínum og sellulósi í trjám. Frumefni og efnasambönd sem finnast náttúrleg í umhverfinu geta verið notuð sem hráefni í manngerðum efnum þegar verið er að búa til ný efni eða efnavörur. Til dæmis er gler í gluggum búið til úr efni sem heitir sílíkat og það er náttúrulegt steinefni sem finnst í jarðvegi. Pappír er búinn til úr sellulósa. Dæmi um efni sem eru eingöngu manngerð eru flúoruð efni, notuð til þess að gera íþróttafötin okkar vatnsheld.

Flest manngerð efni eru ætluð til þess að bæta lífsgæði okkar. Sum efni eru ætluð til þess að þrífa heimilið okkar, borðbúnað og föt. Sum efni eru ætluð til þess að drepa skordýr eða illgresi í garðinum okkar. Í bensíni og öðru eldsneyti eru efni sem í flestum tilfellum eru nauðsynleg til þess að keyra bíla, fljúga flugvélum og jafnvel til að framleiða rafmagn. Listinn yfir manngerð efni er nánast endalaus. Á meðan flest öll þessara efna bæta líf manna þá geta þau um leið valdið skaða á heilsu okkar og umhverfinu.

Efni geta verið skaðlaus og nytsamleg ef þau eru notuð á öruggan hátt, en geta líka verið skaðleg séu þau losuð á röngum stað.

Hvað þarf stóran skammt til að valda eitrun?

Það eru algeng mistök að halda að öll manngerð efni séu skaðleg og öll náttúruleg efni séu hættulaus. Mörg náttúruleg efni geta verið skaðleg heilsu manna. Það eru til mörg dæmi um efni sem finnast náttúrulega í plöntum eða dýrum, sem geta verið eitruð fyrir menn, jafnvel í mjög smáum skömmtum. Til dæmis finnast eitruð efni í sumum sveppum, froskum, fiski eins og stingskötu og hinu rómaða gullregni. Þótt sum manngerð efni geti líka verið mjög eitruð í smáum skömmtum, þá eru  mörg þeirra alveg skaðlaus. Ekki má þó gleyma því að efni sem virðist vera skaðlaust getur valdið eitrun ef það er tekið inn í líkamann í mjög miklu magni.

Hættumerking efna

Settar eru strangar reglur til þess að tryggja að öll efni sem við notum séu í öruggum umbúðum og merkt með hættumerkjum. Hættumerkin má finna á ýmsum algengum efnum til heimilisnota. Þetta geta verið vörur eins og uppþvottatöflur, klór og stíflueyðir í eldhúsinu, einnig vörur eins og málning, lökk og varnarefni sem notuð eru í garðinum.

Við notum 9 mismunandi hættumerki til að merkja hættuleg efni og sum þeirra geta verið merkt með einu eða fleiri hættumerki.

Flest öll efni til heimilisnota sem bera hættumerki á umbúðum eru þó ekki skaðleg heilsu – svo framarlega sem þau séu notuð á tryggan og öruggan hátt! Merkingar á umbúðum efna eiga að innihalda allar viðvaranir og leiðbeiningar sem nauðsynlegar eru til að tryggja örugga notkun. Með því að fara eftir leiðbeiningum um örugga notkun, geymslu og förgun getum við dregið verulega úr mögulegum hættum af völdum efna.

Hér eru nokkur atriði sem þú og fjölskylda þín getið haft í huga ykkur til verndar:

  1. Lesið merkimiðann og leiðbeiningarnar fyrir örugga notkun.
  2. Geymið efni alltaf í upprunalegum umbúðum.
  3. Geymið efni þar sem börn og gæludýr hvorki sjá né ná til.
  4. Blandið aldrei saman efnum nema beinlínis sé ætlast til þess.

Staðreyndir um efni

  • Öll efni hafa sitt eigið auðkenningarnúmer – alveg eins og við eigum okkar eigin kennitölu.
  • Næstum því 99% af líkama okkar eru byggð upp af sex frumefnum: súrefni, kolefni, vetni, köfnunarefni, kalsíum og fosfór. Í meðalmanni má finna um 230 grömm af salti.
  • Farsími inniheldur efni eins og brómíð, klóríð, kvikasilfur, blý og jafnvel smávegis af gulli.
  • Ein teskeið af náttúrulega efninu botúlíni – sem finnst í sumum bakteríum – getur drepið 2 milljarða af fólki.
  • Á milli 1930 og 2000 jókst heimsframleiðsla af manngerðum efnum úr 1 milljón tonna á ári upp í 400 milljón tonn.