Verum varkár
Allt samanstendur af efnum. En af hverju eru sum þeirra skaðleg mönnum? Hvað getur þú gert til að auka öryggi þitt? Finndu svörin í þessari grein.
Á hverjum degi kemst þú í snertingu við allskonar mismunandi efni. Efni finnast í lofti og vatni, í matnum þínum og í vörum eins og tölvum, snyrtivörum og fötum svo nokkur dæmi séu nefnd. Líkaminn þinn kemst í snertingu við efni eftir mismunandi leiðum, til dæmis með því sem þú drekkur eða borðar, með loftinu sem þú andar að þér eða í gegnum húðina.
Sum efni geta verið skaðleg heilsu manna. En áður en þú lest meira, ættir þú að gera þér grein fyrir að þú getur aukið öryggi þitt gagnvart skaðlegum efnum með því að vera varkár.
Hvers konar heilsuskaði getur orsakast af efnum?
Efni geta stundum valdið alvarlegum heilsuskaða. Áhrif geta komið fram stuttu eftir snertingu við efnið og geta til dæmis lýst sér sem erting eða alvarlegur skaði á húð eða augum. Slík áhrif koma í flestum tilfellum fram eftir slys á heimili eða í vinnu eða vegna þess að efni eru notuð á óábyrgan hátt.
Sum áhrif geta komið fram á löngum tíma eftir að viðkomandi hefur verið í snertingu við skaðleg efni. Þetta gerist venjulega þegar viðkomandi kemst í endurtekna snertingu við efni í langan tíma. Slík áhrif geta lýst sér sem lungnaskemmdir, lifrarskemmdir og skemmdir í öðrum líffærum í líkamanum eða þróast út í ofnæmi.
Börn er jafnan viðkvæmari fyrir skaðlegum efnum heldur en fullorðnir vegna þess að líkami barna er enn að vaxa og þroskast.
Vörur sem bera hættumerkin „Heilsuskaði“, „Ætandi“ og „Alvarlegur heilsuskaði“.
Grillvökvi, margir vatnsverjandi úðar og margar aðrar vörur til heimilisnota eru merktar með einu eða fleiri hættumerkjum. Tígullaga hættumerki og texti á merkimiðanum segja þér frá hættunni sem getur stafað af vörunni. Leiðbeiningar um öryggi segja þér einnig hvernig þú getur notað vöruna á réttan hátt.
Heilsuskaði
Þetta hættumerki er mögulega hægt að sjá á hreinsiefnum, lyktareyðum og uppþvottalegi.
Alvarlegur heilsuskaði
Þetta hættumerki er mögulega hægt að sjá á grillvökva, lími, terpentínu og bensíni.
Ætandi
Þetta hættumerki er mögulegt að sjá á klósetthreinsi, stíflueyði, þvottadufti og ammoníaki til heimilisnota.
Eru efni til heimilisnota hættuleg?
Þessari spurningu er erfitt að svara á afgerandi hátt. Í raun fer það eftir eiginleikum efnisins, einnig eftir því hversu miklu magni af efni þú kemst í snertingu við og á hvaða hátt það gerist.
Ef þú hellir grillvökva á hendina þína fyrir slysni, þá getur það valdið roða og ertingu á húðinni í stuttan tíma. Ef þú gleypir grillvökva fyrir slysni, getur það valdið alvarlegum skaða. Ef þú notar grillvökva eingöngu til að kveikja upp í grillinu og kemst ekki í snertingu við vökvann, þá er notkun á hans örugg.
Hér er annað dæmi. Ef þú ert að meðhöndla skóna þína með vatnsverjandi úða, þá ættirðu alltaf gera það utandyra eða í vel loftræstu herbergi. Ef þú gerir það inni í lokuðu herbergi (t.d. með lokaða glugga) muntu anda að þér gufu frá úðanum. Þetta getur valið hósta, svima eða hausverk. Ef þú úðar skóna þína endurtekið við þessar aðstæður þá getur það á endanum leitt til þess að lungun verða fyrir skemmdum.
Hvað getur þú gert til að tryggja öryggi þitt?
Það er alltaf best að láta einhvern fullorðinn sjá um að nota hættumerktar efnavörur! Þetta á við til dæmis um vörur sem merktar eru með hættumerkjunum „Ætandi“ og „Alvarlegur heilsuskaði“. Önnur efni eru ekki eins skaðleg fyrir heilsu þína svo framarlega sem þú notar þau á réttan og öruggan hátt. Þetta getur verið uppþvottalögurinn í eldhúsinu.
Hér eru nokkur atriði sem þú og fjölskylda þín getið haft í huga ykkur til verndar:
- Lesið merkimiðann og leiðbeiningarnar fyrir örugga notkun.
- Geymið efni alltaf í upprunalegum umbúðum.
- Geymið efni þar sem börn og gæludýr hvorki sjá né ná til.
- Blandið aldrei saman efnum nema beinlínis sé ætlast til þess.
Hvað á að gera ef upp kemur slys með efni?
Því miður verða daglega slys með efni á heimilum fólks. Mjög oft verða lítil börn fyrir slysunum. Ef þú lendir í slysi eða þú verður vitni að slysi þá skaltu alltaf kalla á fullorðinn og biðja um hjálp. Ef enginn fullorðinn er nálægt skaltu hringja í neyðarlínuna 112.